Sunday, November 27, 2016

Appelsínu önd

Ég á ekkert í þessari uppskrift. Ég fékk hana lánaða en man því miður ekkert hvar. En góð er hún. Þetta er ekki það auðveldasta sem ég elda aðalega vegna þess að það er smá erfitt að ná öllu tilbúnu á sama tíma og krefst þess að maður sé í eldhúsinu meira og minna í 2 tíma. Þetta er samt algjörlega þess virði því betri mat fæ ég nánast ekki.

Appelsínu önd

Andarbringur (ein á mann er venjulega nóg þó gott sé að hafa 1-2 auka).
Salt og pipar

Appelsínu Sósa


Fitan af öndinni (það sem er á pönnunni)
Mtsk beikon
½ rauðlaukur
Mtsk villisveppir
3 mtsk Sykur
100 ml vatn
200 ml safi úr appelsínum
2 mtsk appelsínu þykkni
300 ml soð af öndinni
1-2 mtsk Andar kraftur frá Oscar
100 ml Rjómi
Salt og pipar

Aðferð

Byrjið á að setja villisveppina í volgt vatn (upphitað). Þeir eiga að liggja þar í 10-15 min. Skerið beikonið í bita og saxið laukinn.

Skerið rákir í fituna á öndinni. Nuddið sárið með salti og pipar. Steikið öndina fitumegin á þurri pönnu í 3 mínútúr og 1 mín á hinni hliðinni. Setjið andarbringurnar til hliðar (viskustykki yfir) og byrjið á sósunni.


Forhitið ofninn á 190 gráður. 

Notið sömu pönnu og öndin var steikt á með aukafitunni. Steikið beikonið, sveppina og laukinn. Bætið sykrinu saman við ásamt vatninu. Leyfið að sjóða í 2-3 mínútur. Því næst bætið þið við appelsínusafanum og þykkninu. Sjóðið niður um sirka helming. Tekur um 30-50 mínútur. Setjið til hliðar og byrjið aftur á öndinni.

Setjið öndina inní öfn á grind í 5 mín. Fyrir neðan skulu þið hafa fat með vatni (sirka 600 ml). Eftir 5 mín skulu þið taka öndina út í 5 mín. Setja öndina aftur inn í 5 mín og endurtakið ferlið þar til að öndin hefur verið inní ofninum í 15 mín. Ástæðan af hverju þetta er gert svona er að þið eruð að reyna að halda öndinni bleikri en fitunni stökkri og góðri. 

Að lokum eru endurnar teknar út og leyft að jafna sig á meðan þið klárið sósuna. Bætið við soðinu úr ofnskúffunni, ásamt andarkraftinum. Sjóðið í smá stund. Lækkið hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til. 

Gott er að bera fram með brúnuðum kartöflum, salati og waldorf-salati.







Saturday, November 26, 2016

Franskur kjúklingaréttur (Ömmu Dídí kjúklingur)

 Þetta er án djóks ein auðveldasta uppskrift sem ég elda reglulega. Fyrir utan að vera með fáum og einföldum hráefnum þá er einnig nánast ómögulegt að klúðra henni. Eldunartími skiptir þannig lagað litlu máli eða það er allavega ekki spurning um einhverjar sekúndur eða mínútur til eða frá. Vona að þið njótið. 

Ömmu Dídí kjúklingur

 Uppskriftin miðast við 2-3

2 kjúklingabringur 
Pakki af sveppum (sirka 15-20 stykki). Gott er hafa sveppina litla.
1 stk dolla af Sýrðum rjóma
1 hvítlauksrif
Smjör
Herbs de Provence (krydd)
Salt og pipar

Eldun

Sveppirnir eru skornir í tígla (þeir eiga sem sagt ekki að vera í sneiðum, heldur bitum). Smjörið er sett á pönnu og brætt. Afhýðið hvítlaukinn, skerið hann í tvennt (endilagt) og bætið út í smjörið. Lefyið þessu að steikjast í nokkrar sekúndur. Þá er sveppunum bætt út. Kryddið þá með Herbs de Provence kryddinu (Sirka matskeið) og salt og pipar. Steikið þar til að þeir eru orðnir mjúkir.

Á meðan sveppirnir eru að steikjast, eru kjúklingabringurnar skornar í bita (munnbita stærð). Því næst sveppunum ýtt til hliðar á pönnunni (miðjan á að vera tóm) og kjúklingnum bætt á pönnuna. Kryddið kjúklinginn með Herbs de Provence kryddinu (teskeið) og salt og pipar. Kjúklingurinn er svo steiktur þar til að hann er tilbúinn. Hvítlaukurinn er fjarlægður.

Að lokum er svo sýrða rjómanum bætt útí og leyft að bráðna (tekur um það bil 1-2 min). Voila!

Sem sagt í stuttu máli þá steikið þið sveppi, kryddið, svo kjúkling, kryddið og bætið svo við sýrðum rjóma. Gæti ekki verið einfaldara.

Sjálfur hef ég alltaf ristað brauð með smjöri með þessu því það er fáránlega gott að dýfa því í sósuna. En ég veit að hrísgrjón passa líka vel við. Svo er auðvitað ekki verra að skella í salat líka. 


Græna draslið á myndinni er bara skraut hahaha




Thursday, November 24, 2016

Nautakjöt Tataki


500 gr nautakjöt
Salt og pipar
Marening
Graslaukur (eða vorlaukur)
Smjör

Marinering

4 tsk Soya Sósa
1 ½ tsk Sítrónusafi
Þumalputti Engifer (um 8 gr)
2 stór hvítlauksrif
Smá Graslaukur
Salt og pipar
1 tsk Red wine vinegar
½ tsk hrá sykur

Sítrónu-sojasósa

6/10 Japönsk Soja
3/10 Sítrónusafi
1/10 Redwine-vinegar

Eldun

Kjötið er kryddað með salt og pipar og svo lokað á öllum hliðum á pönnu með smjöri á háum hita. Því næst er marineringunni nuddað í kjötið og leyft að standa í smá stund. Kjöthitamælir settur í kjötið og það sett inn í ofn á lágum hita (helst ekki mikið meira en 120 gráður). Kjötið er svo tekið út þegar innri hiti þess er 57 gráður eða medium-rare. Látið kjötið standa í smá stund og svo er það aftur sett í marineringu og vafið inn í plastfilmu. Sett í ísskáp í 2 tíma eða lengur. Tekið út og látið standa í 30 min. 

Að lokum er kjötið skorið í frekar þunnar sneiðar, graslaukur settur inní og rúllað upp. Borið fram með Sítrónu-Soja Sósu og borðað með sushi prjónum. Einnig mæli ég með að hafa með þessu steikta hvítlauks-sveppi og/eða jafnvel humarsúpu.